the-restless-honeybee

fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Hamborg

Brunaði niður til Hamborgar á þriðjudaginn. Rúmlega fimm tímar í rútu, 5 tíma stopp á listasafninu og fimm tímar til baka aftur. Meiri vitleysan. Safnið var risastórt, endalaus fjöldi af myndum og allt of mikið af fólki. Ég hef greinilega ekkert úthald í svona, eftir tvo tíma leið mér eins og ég hefði verið í Kringlunni í marga tíma, því sem næst andlega dauð. Það skemmtilegasta við ferðina var eiginlega að spjalla við fólkið í rútunni. En úff, hvað heilinn minn verður stundum þreyttur á öllum þessum tungumálum. Ætlaði að reyna að spyrja hvort ég fengi aftur í kaffibollann minn í teríunni en gat ómögulega sett saman setninguna á þýskunni. Daginn eftir í skólanum valt svo þýskan fram, aðeins of seint. Stundum hringja líka foreldrar Páls og þá þjálfar maður ungverkskuna. En stundum verður þetta bara einum of mikið, og þó ég sé bara alveg ágæt í dönskunni þá segir heilinn stundum stopp, og þá bara þegir maður í smátíma (ekki erfitt).

Ég hef verið að vinna með stóra mynd af augunum hennar Yrju og textabrot úr vísum Vatnsenda-Rósu. Það er áhugavert að sjá hvernig endalega myndin verður stundum allt annað en maður lagði upp með. Var búin að gera stóra skissu og byrjaði svo á aðalmyndinni í dag. Ég var búin að gera, það sem ég taldi að ætti að vera undirlagið á myndinni, en þá sagði kennarinn bara stopp og sagði að ég ætti ekkert að gera meira, hún væri bara stórfín eins og hún væri. Það er sjálfsagt erfiðasta lexían í myndlistinni eða bara list almennt, hvenær á maður að stoppa.

laugardagur, nóvember 25, 2006

Jólahvað..

Úff, nú er jólabrjálæðið að fara á fullt hérna í Aarhus. Ég get ekki að því gert að ég verð hálf þunglynd af allri þessari mannmergð og öllu draslinu í búðunum. Meira neyslubrjálæðið. Já, já og hvað er maður þá að þvælast niðri í bæ? Var reyndar að leita að jólakjól fyrir Yrju, í Genbrugsbúðum, af sjálfsögðu. Get bara ekki ímyndað mér að kaupa kjól fyrir 2-500kr. danskar ef ég get keypt hann fyrir 20kr í genbrug. Heppnin var reyndar ekki með okkur í þetta skiptið, en þannig er það bara þegar maður verslar notað, maður getur ekki gengið að hlutunum vísum, en það finnst mér bara allt í lagi. Gerir það bara meira spennandi, maður veit aldrei hvað maður finnur eða hvenær.

Annars er ég búin að sjá það út að það er einhver kona hérna í grenndinni sem er í minni stærð og hefur svipaðan smekk á fötum og ég. Ég hirti nefnilega brúnan ullarfrakka og nokkrar peysur úr ruslinu um daginn. Allt í fínu standi. Þannig að það er bara spurning hvort ég fari ekki bara að hætta versla föt á mig úr Genbrug og bíði bara eftir að hún hendi sínum fötum. Það er meira að segja fínasta ilmvatnslykt af fötunum hennar. He, he nú er ég farin að endurnýta ilmvatnslykt líka. Nenni sko ekki að standa í því að handþvo hreinar prjónapeysur, jafnvel þó ég hirði þær úr ruslinu.

Já og svo er spurning hvort ég sé haldin einhvers konar athyglisbrest. Mér tókst, einu sinni enn, að gleyma lyklunum mínum í skránni yfir nóttina. Hversu utan við sig getur maður eiginlega verið. Maður stingur lyklinum í skránna og opnar hurðina, og púfff, lyklarnir eru gleymdir. Ég er að hugsa um að reyna að venja mig á það að syngja um hurðaropnunina; Da, dí dúmm ég sting lyyyklinum í skrááána, la, la og svooo opna ég hurðina, da ba dí ba rííí og svo teeeeek ég lyyyyklana úr skráánnni og da, da sting þeim í vaaaasann. Einhverja svona minnistækni verð ég allavega að temja mér.

þriðjudagur, nóvember 21, 2006

Úr tilraunaeldhúsi Berglindar

Þá er ég búin að prufa avocado- og skyrnæringu á hárið. Átti reyndar að vera jógúrt, og fyrir þá sem ekki vita þá er Græsk Yoghurt eins og íslenskt skyr. Þessu er bara skellt í matvinnsluvél og látið sitja í hárinu í hálftíma eða svo. Hárið er bara ferlega vel nært (held ég) og Elfur líka þar sem hún fékk afganginn af næringunni í hádegismat. Ég er síðan að fara búa til krem, þar sem ég pantaði mér kremgerðarsett frá Urtegaarden. Þannig að það er bara Ooommm, og sátt og samlyndi við náttúruna. Úff ætli ég sé born again hippi eða hvað?

Er ekki hægt að fá staðfestupillur? Það er nefnilega búið að vera kynna fyrir okkar deildirnar í fagskólanum. Og fyrirfram var ég ákveðin að fara í málaradeildirnar. En eftir kynningarnar þá er Blandform líka áhugavert, svo og keramik og jafnvel skulptur. Og ef ég þekki mig rétt þá á ég örugglega eftir að fá áhuga á Grafík- og Mediadeildunum, jafnvel þó ég hafi engan áhuga núna. Góð kynning og áhugaverður kennari er nóg. Erfitt að vera svona mikill skoðanaskiptir. Ég á bara ekkert að fá hafa meira en tvo-þrjá möguleika, svona yfirleitt, get höndlað það (oftast).

Svo er ég búin að sjá það að keppnisgenin mín eru sko í formi þó líkaminn sé það ekki. Mér finnst EKKI gaman þegar fólk hjólar fram úr mér. Sjálfsagt einhverjir flóknir komplexar þar á bak við. þannig að það er tvennt í stöðunni a) að fara til Sála og vinna úr þessu eða b) koma mér í form og sjá til þess að það fái engin tækifæri til að taka fram úr mér. Ekki erfitt val. Annars þarf ekki annað fólk til þess að keppnisskapið vakni. Því þá fer ég bara að fylgjast með tímanum, hvort ég nái nú ekki að vera aaaðeins fljótari en í gær......greinilega óforbetranleg keppnismanneskja.

mánudagur, nóvember 20, 2006

Úr tilraunaeldhúsi Berglindar.

Þá er ég búin að prófa avocado- og skyrnæringu í hárið. Átti reyndar að vera jógúrt en ekki skyr, og fyrir þá sem ekki vita þá er Græsk Yoghurt sem sagt skyr. Bara skellt í matvinnsluvél og maukað. Hárið á mér er alveg ferlega vel nært, og Elfur líka, þar sem hún fékk afganginn af djúpnæringunni í hádegismat. Svona á þetta að vera.

Ég pantaði mér síðan kremgerðarsett á netinu, þannig að nú get ég farið að gera ofsalega hollt heimatilbúið krem án allra aukaefna. Er að hugsa um að panta mér líka maskara-kit.

Annars held ég að þessi fjölskylda eigi sér ekki viðreisnar von. Nú er Páll að hugsa um að skella sér í tónsmíðanám á næsta ári. Myndlistarmaður og tónskáld! Nokkuð ljóst að við erum ekki að reyna að verða rík. Og ég sem var búin að gera ráð fyrir að Páll myndi þræla sér í vinnu svo að ég gæti slett málningarskellum á striga. En þá er það bara LÍN, og þá getur maður byrjað að lifa í vellystingum.

Smá frásagnir af stelpunum í lokin.

Samkvæmt Yrju þá eru nokkur börn í leikskólanum með brúnt ljóst. En einhverra hluta vegna þá kallar Yrja húðina, ljóst.

Stelpurnar vildu endilega fá harðsoðin egg í gær. Yrja finnst voðalega spennandi að taka sjálf utan af því, og Saga vill þá fá að gera eins. Hún getur sko allt sem Yrja getur, og meira til. Henni tókst að brjóta skurnina með skeiðinni og ég sá allt í einu að eggið var komið í tvennt. Næst þegar ég kíkti þá var Saga að stinga stórum bita upp í munninn, og varð heldur betur hissa þegar hún fór að bryðja skurnina ásamt egginu. Ég fékk vinsamlegast leyfi til að hjálpa eftir það.

Smá könnun í lokin.

Hvaða skoðun hafið þið á:
a) Heimatilbúnum gjöfum
b) Notuðum, en sem nýjum, gjöfum.
c) Að gefa tíma sinn í jólagjöf t.d. í formi pössunar, hreingerningar eða hvaða verk sem maður er tilbúin að vinna.

Já ætli maður þurfi ekki að fara fá jólagjafalista frá börnum og barnlausum í fjölskyldunni.

mánudagur, nóvember 13, 2006

Tilraunir úr eldhúsinu

Ef einhver (af hinum fjölmörgu sem lesa þetta blogg mitt ;-)) hefur áhuga á að vita þá á EKKI að sjóða hárfjarlægingarsykursull í hálftíma! Það dugar hins vegar mjög vel að skella mixtúrunni í örbylgju í 3 mín. og voilá. OG ég mæli ekki með því að horft sé á Desperate Housewifes (eða bara á sjónvarp yfirleitt) við dauft ljós, á meðan maður fjarlægir leggjahárin, nema maður hafi áhuga á abstrakt skallablettum á leggjunum.

Olíuhárnæringin sem ég bjó til heppnaðist heldur ekki alveg nógu vel. Eða það er kannski spurning um að ég lesi líka leiðbeiningarnar á netinu þegar ég er búin að skrifa innihaldslýsinguna. Og taki vel eftir hvort nota á næringuna fyrir eða eftir hárþvott. En það er sem sagt EKKI nóg að skola hana úr með heitu vatni. Get ekki enn mælt með eða á móti eggjasjampóinu sem ég bjó til, þarf að kanna það aðeins betur. Og það var kannski aaaaðeins of mikið eplaedik í ediksskolvatninu mínu. Kannski spurning um að ég fari að temja mér aðeins meiri nákvæmni og örlítið minni fljótfærni.

Ég er líka búin að vera dugleg við saumavélina. Er byrjuð á bútasaumsteppi undir jólatréið. Og nei þetta er ekki svona snyrtilegur og fínn bútasaumur eins og mamma gerir. Ég nota tækni sem heitir Crazy Patchwork, sem að leyfir manni miklu meiri óvandvirkni og ónákvæmni. Perfect fyrir mig. Teppið fellur alveg inn í þema mánaðarins, þar sem undirlagið er gert úr fötum sem ég hirti af ruslasvæðinu og heill poki af bútum keyptir á 10dkr. hjá Kirkens Korshær.

laugardagur, nóvember 11, 2006

Dumme, dumme danske system..

Í gær ætlaði ég aldeilis að kenna Yrju að redda sér. Við tvær vorum nefnilega á leiðinni í Laden (söngæfingarhúsið mitt) í gær og sáum þó nokkuð af gosdósum á leiðinni. Þannig að ég sagði við Yrju að ef hún myndi týna dósirnir þá gætum við farið niður í City Vest eftir söngæfinguna og fengið pening fyrir dósirnar og hún mætti síðan kaupa sér nammi fyrir peninginn. Heilmikill lærdómur í þessu um vinnuframlag og laun, he, he.

Við fylltum einn poka af dósum og rölltum síðan niður í City Vest. Þar er vél sem étur dósirnar og spýtir síðan út úr sér kvittun. En það kom í ljós að dósirnar þurfa að vera sérmerkar skiladósir, þannig að allar kókdósir eru sko ekki jafnar. Þegar vélin var búin að gleypa 10 dósir og vildi ekki borga nema fyrir eina þeirra þá gafst ég upp.

Yrja fékk samt nammið sitt. En ég segi bara vitlausa danska kerfi.

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Góður dagur

Hjólið er loksins komið í lag. Það var alveg yndislegt að hjóla í skólann í morgun. Tókst reyndar að villast aðeins, enda fór ég skógarstíginn, og það var svolítið erfitt að átta sig á því hvar maður ætti að koma inn í bæinn aftur. Ég var smá stressuð að þurfa að fara seinasta bútinn á umferðargötunum, en ég fann mér bara hjólreiðamann sem virtist vita hvert hann var að fara og elti hann. Hann fór líka að Vestergade þar sem skólinn minn er, þannig að þetta reddaðist allt. Það tekur svona 30 mín. að hjóla þetta, en vá.....hvað maður er mikið ferskari eftir hjólreiðatúrinn heldur en að húka í strætó. Ég á svo eftir að sjá hvernig ég pluma mig í hellidembum.

Annars erum við búin að vera dugleg síðustu daga. Búin að baka alveg helling, bæði hollt brauð og góðar kökur, sem að stelpurnar hjálpuðu með. Eplavínið hans Páls er að gerjast og ég ætla að fara að sjóða saman sykurleðju til að fjarlægja náttúrulegu legghlífarnar mínar. Og svo þarf ég að útbúa djúpnæringu í hárið þar sem sú keypta er búin og djúpnæring kemst ekki á listann yfir lífsnauðsynlega hluti. Næturkrem þarf ég einnig að útbúa bráðlega og það verður fróðlegt að vita hvað ég get nýtt úr eldhúsinu í það. Það eru sem sagt spennandi tímar framundan ;-)

sunnudagur, nóvember 05, 2006

Nokkrar myndir eftir Yrju.




Pabbi, mamma, börn og strætó.






Úff, ég er farin að halda að það hafi verið mistök að eiga þrjú börn með svona stuttu millibili. Skruppum í bæinn í gær og vorum á tímabili með þrjú vælandi börn, standandi aftast í vagninum þar sem hann var fullur af fólki. Hefði verið fínt að eiga eitt stórt barn til að hjálpa til. Þær geta hins vegar verið alveg yndislegar........ sérstaklega þegar þær sofa. Það var hins vegar mjög gáfulegt að drífa sig í skóla og láta manninn sjá um börnin.

Í skólanum erum við búin að vera vinna með módel alla vikuna. Alveg meiriháttar. Í næstu viku byrjum við hins vegar að vinna með tölvur, sem ég er ekki eins spennt fyrir. En þetta fyrsta ár snýst víst um að vinna með myndlist á sem breiðustum grunni. Og í lok mánaðarins skreppum við svo til Hamborgar.

Veturinn er komin til Danmerkur, sem ég er alveg hæstánægð með. Verð að segja að mér finnst mun erfiðara að klæða mig eftir veðri hérna, heldur en heima. Heima er bara annað hvort kalt eða aðeins meira kalt. En hérna getur verið skítakuldi um morguninn og svo bara þó nokkuð hlýtt eftir hádegi, sem þýðir að maður er að deyja úr hita í þykku vetrarfötunum. Pirrandi.

Annars er fíllinn eftir Yrju en ekki mig, ef einhver er í vafa.