fimmtudagur, nóvember 30, 2006

Hamborg

Brunaði niður til Hamborgar á þriðjudaginn. Rúmlega fimm tímar í rútu, 5 tíma stopp á listasafninu og fimm tímar til baka aftur. Meiri vitleysan. Safnið var risastórt, endalaus fjöldi af myndum og allt of mikið af fólki. Ég hef greinilega ekkert úthald í svona, eftir tvo tíma leið mér eins og ég hefði verið í Kringlunni í marga tíma, því sem næst andlega dauð. Það skemmtilegasta við ferðina var eiginlega að spjalla við fólkið í rútunni. En úff, hvað heilinn minn verður stundum þreyttur á öllum þessum tungumálum. Ætlaði að reyna að spyrja hvort ég fengi aftur í kaffibollann minn í teríunni en gat ómögulega sett saman setninguna á þýskunni. Daginn eftir í skólanum valt svo þýskan fram, aðeins of seint. Stundum hringja líka foreldrar Páls og þá þjálfar maður ungverkskuna. En stundum verður þetta bara einum of mikið, og þó ég sé bara alveg ágæt í dönskunni þá segir heilinn stundum stopp, og þá bara þegir maður í smátíma (ekki erfitt).

Ég hef verið að vinna með stóra mynd af augunum hennar Yrju og textabrot úr vísum Vatnsenda-Rósu. Það er áhugavert að sjá hvernig endalega myndin verður stundum allt annað en maður lagði upp með. Var búin að gera stóra skissu og byrjaði svo á aðalmyndinni í dag. Ég var búin að gera, það sem ég taldi að ætti að vera undirlagið á myndinni, en þá sagði kennarinn bara stopp og sagði að ég ætti ekkert að gera meira, hún væri bara stórfín eins og hún væri. Það er sjálfsagt erfiðasta lexían í myndlistinni eða bara list almennt, hvenær á maður að stoppa.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home