fimmtudagur, október 26, 2006

; )

Jæja, þá er ég búin að teikna fyrsta nakta módelið mitt. Fyrirsætan var ca. áttræður karlmaður. Var greinilega ekki mikið mál fyrir hann að vippa sér úr fötunum og spranga á sprellanum. Daginn eftir urðum við síðan sjálf að skiptast á að vera módel, þar sem ekki fékkst neinn til að sitja fyrir. Og það jók sko virðingu mína fyrir myndlistarmódelum til muna. Það er kannski ekki mikið mál að vera miðpunktur athyglinnar og láta teikna sig.........en að þurfa að sitja kjur í, það sem virðist vera heil eilíf, er sko ekki auðvelt. Samt þurftum við lengst að sitja í 12 mín, en hann tók miklu erfiðari stöður í 20 mín. En vá, hvað það er gaman að svona módelteikningu.

Í dag fengum við síðan hálfgerða gyðju til að móta í leir, norsk stelpa með allt á réttum stöðum. Og svei mér þá, ef það er bara ekki alveg jafngaman að vinna með módel í leir eins og að teikna.

Annars er mest fínt að frétta af stelpunum. Yrja er búin að eignast vinkonu á leikskólanum. Hún er samt ekki alveg jafn góð og Eyvör heima á Glaðheimum, segir Yrja, þar sem Eyvör er víst bara góð, en Sine er stundum vond þegar hún hendir sandi á Yrju. Saga er bara brjáluð eins og venjulega (svei mér þá, ef hún er ekki með snert af einhverri ofvirkni) og Elfur litla er bara alltaf jafn kát, að vísu aðeins kvefuð þessa dagana, en brosir og hlær engu að síður.

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home