the-restless-honeybee

mánudagur, maí 21, 2007

Brenderup II

Ég er búin að vera á Brenderup síðustu fimm daga. Það þýðir ekkert annað en að reyna að klára þetta hálmhús. Ekki tókst það þó í þetta sinn, en nú er að komast aðeins meiri mynd á þetta.

Skólinn tekur svo við á morgun, en þá þurfum við að fara að undirbúa lokasýningu skólans. Ég var búin að leggja fram lokaverkefnið mitt á þriðjudaginn síðasta. Þurfti að útskýra verkið fyrir öllum nemendum og kennurum fornámsins. Ekki alveg það skemmtilegasta sem ég geri, að standa fyrir framan hóp fólks og þá sérstaklega að ætla að vera eitthvað gáfuleg á dönsku. Lokaverkefnið fer síðan líklega á sýninguna ásamt einhverjum teikningum sem ég hef gert yfir veturinn.

Svo er bara skólinn búin í bili og við á leiðinni með lest niður til Ungverjalands þann 30.maí.

föstudagur, maí 04, 2007

Skidegodt Egon!

Ég er búin að sjá það að listamannslífið verður sko ekkert grín. Og þá er ég ekki að tala um þá staðreynd að maður kemur sjálfsagt ekki til með að græða neina peninga á því. Nei, þá er ég að tala um alla valmöguleikana sem maður hefur þegar maður er að vinna að verki. Ég sé fram á það að þurfa að gera 10 útgáfur að hverju einasta verki sem ég vinn að. Mér finnst bara skidesvært að þurfa að ákveða að aðeins ein lausn virki best.

Það verður fernisering (opnun myndlistarsýningar) þann 25.maí. Ég er búin að velja nokkrar teikningar sem fara á sýninguna, og ef mér tekst vel með lokaverkefnið mitt sem ég er að vinna að núna, þá fer það líklega líka á sýninguna. Ef það kemst fyrir einhver staðar.

miðvikudagur, maí 02, 2007

3.maí

Loftvarnaflauturnar fóru af stað um hádegisleytið í gær. Ég fékk nú svolítið í magann þó svo að ég gerði nú ekki ráð fyrir að óvinaher væri að fljúga yfir Danmörku, reiðubúinn að kasta sprengjum. Þegar ég spurði samnemendur mína kom líka í ljós að þeir prufa flauturnar alltaf 3.maí. Ókei flauturnar virkuðu fínt, en mig langar að vita hvert ég á að hlaupa ef virkilega er þörf. Það gat enginn sagt mér það.

Mig dreymdi síðan hárauða sprengju sem sveimaði fyrir utan gluggann minn.