Græn og væn.
Annars er ég alltaf að pæla í leiðum til að verða grænni og vænni, ásamt því að minnka neysluna. Ef einhver hefur áhuga þá er þessi síða fyrir fólk sem vill verða sjálfbærari og grænni. www.downsizer.net Núna ætla ég að fara að búa til mína eigin sápu. Sparnaðurinn verður kannski ekki mikill, en heimatilbúin náttúruleg sápa fer betur með umhverfið og um það snýst þetta líka. Svo á líka að vera hægt að nota sápuna til að þvo föt. Auk þess sem það er bara svo gaman að geta gert hlutina sjálfur. Hannaði og saumaði í gær svona ,,thingy" sem maður festir á moppu, og getur þá notað moppuna til að sópa.
Við erum reyndar ansi góð í að spara rafmagnið þessa dagana. Þannig er að það voru engin perustæði í íbúðinni þegar við fluttum inn. Það var reyndar ljós á baðherbergjunum og í eldhúsinu. Peran í eldhúsinu sprakk síðan og við höfum ekki nennt að finna út hvernig á að láta nýju rörperurnar virka. Við notumst því bara við lampa. Í vetur ætlum við síðan bara að vakna kl. 5:00 til að nýta dagsljósið og fara fyrr að sofa á kvöldin. He, he......nei, varla. En það munar samt ansi miklu að fara sparlega með rafmagnið, eins og líka kalda og heita vatnið, og hitann. Þetta er nefnilega allt inni í leigunni, og ef við notum minna þá lækkar leigann. Það er mælitæki á veggnum á ganginum, þar sem maður getur fylgst með hvað maður er að nota mikið. Þannig að þetta er eins og skemmtileg áskorun eða keppni. Hvað getum við komist af með lítið? Mér finnst þetta bara gaman. Ætli ég sé með eitthvað brenglað skemmtiskyn?