the-restless-honeybee

laugardagur, júlí 29, 2006

Græn og væn.

Ég verð að segja það að nýpressaður, ferskur ávaxtasafi er algjör snilld. Það er orðin hefð á þessu heimili þegar ég fer á fætur (já ég svolítið morgunsvæf þessa dagana), þá bý ég til safa. Yfirleitt samanstendur hann af eplum, appelsínum og gulrótum. Það er náttúrulega ekki það ódýrasta að búa til svona safa daglega, en á móti kemur að eftir að hafa smakkað ekta safa þá hefur maður engan áhuga á að kaupa búðarsafa. Og við erum að gera tilraunir með að nýta safaríkasta hratið sem verður eftir, í muffins. Virkar bara ágætlega.

Annars er ég alltaf að pæla í leiðum til að verða grænni og vænni, ásamt því að minnka neysluna. Ef einhver hefur áhuga þá er þessi síða fyrir fólk sem vill verða sjálfbærari og grænni. www.downsizer.net Núna ætla ég að fara að búa til mína eigin sápu. Sparnaðurinn verður kannski ekki mikill, en heimatilbúin náttúruleg sápa fer betur með umhverfið og um það snýst þetta líka. Svo á líka að vera hægt að nota sápuna til að þvo föt. Auk þess sem það er bara svo gaman að geta gert hlutina sjálfur. Hannaði og saumaði í gær svona ,,thingy" sem maður festir á moppu, og getur þá notað moppuna til að sópa.

Við erum reyndar ansi góð í að spara rafmagnið þessa dagana. Þannig er að það voru engin perustæði í íbúðinni þegar við fluttum inn. Það var reyndar ljós á baðherbergjunum og í eldhúsinu. Peran í eldhúsinu sprakk síðan og við höfum ekki nennt að finna út hvernig á að láta nýju rörperurnar virka. Við notumst því bara við lampa. Í vetur ætlum við síðan bara að vakna kl. 5:00 til að nýta dagsljósið og fara fyrr að sofa á kvöldin. He, he......nei, varla. En það munar samt ansi miklu að fara sparlega með rafmagnið, eins og líka kalda og heita vatnið, og hitann. Þetta er nefnilega allt inni í leigunni, og ef við notum minna þá lækkar leigann. Það er mælitæki á veggnum á ganginum, þar sem maður getur fylgst með hvað maður er að nota mikið. Þannig að þetta er eins og skemmtileg áskorun eða keppni. Hvað getum við komist af með lítið? Mér finnst þetta bara gaman. Ætli ég sé með eitthvað brenglað skemmtiskyn?

föstudagur, júlí 28, 2006

Stórkostlegar gáfur eða athyglisbrestur...

Jæja.....ég ákvað að gera smá samfélagslega könnun í gær. Svona til að kanna heiðarleika fólksins í blokkinni. Ég skildi því lykilinn eftir í skránni...jæja, ókei ég gleymdi honum í skránni. Þetta hefur nokkrum sinnum komið fyrir mig á Króknum, og ég er búin að vera að reyna að passa mig á þessu hérna. En sem sagt....niðurstaðan er að fólkið er heiðarlegt (allavega á minni hæð), því strákurinn á móti, bankaði rétt áðan til að láta mig vita af þessu (veit svo sem ekki hvort þau voru búin að hlaupa út í morgun til að láta gera afrit af lyklinum).

Ferlegt að vera svona utan við sig....eigum við ekki bara að segja að þetta sé merki um stórkostlegar gáfur! He,he...Maður er að hugsa um svo merkilega hluti að svona smáatriði, eins og að skilja lykilinn eftir í skránni, eða gleyma að maður er að sjóða egg og fara niður í bæ að versla, eða setja mjólkina inn í skáp og saltið inn í ísskáp, falla bara í skuggann.

miðvikudagur, júlí 26, 2006

Untitled..



Hér kemur ein aðeins skárri mynd af Elfi..

Myndir af stelpunum





Jæja, þá koma nokkrar myndir af stelpunum. Ég er svona rétt að byrja að prufa mig áfram með nýju myndavélina.

Held ég þurfi nú samt að skella mér á eitthvert námskeið til að læra almennilega á þetta.

Við erum búin að hlægja mikið af grátmyndinni. Svipurinn á Yrju er óborganlegur.

miðvikudagur, júlí 19, 2006

Í gettóinu

Ég fékk konu frá ungbarnaeftirlitinu í heimsókn í gær. Hún vildi bara fá að kíkja á Elfi og allt í fínu með það. Nema svo spurði hún hvort við vissum að við byggjum hérna í miðju gettói? Duhh.. já ég var nú eiginlega búin að fatta það. Þegar 9 manns af hverjum 10 eru með slæðu, svartir eða mjög dökkir yfirlitum þá get ég nú alveg dregið þá ályktun að þetta svæði sé ekki alveg venjulegur þverskurður af Danmörku. Mér fannst eins og hún héldi að ég myndi bara stökkva upp úr sófanum í mikilli geðshræringu.

Þegar talið barst síðan að leikskólum fyrir eldri stelpurnar, þá spurði hún hvort ég gerði mér grein fyrir því, að ef ég set stelpurnar í leikskóla hérna í hverfinu, þá eru kannski eingöngu innflytjendur á þeim? Uhh....já og.....? Ég nennti ekki að benda henni á að við erum nú hálfgerðir innflytjendur líka.

Annars vorum við að uppgötva algjöran gullmola hérna í hverfinu. Það er leikvöllur með allskonar leiktækjum og dóti, og ýmiskonar húsdýrum. Algjörlega ókeypis og tekur 3 mín að labba þangað. Ég verð bara að segja það enn og aftur, þetta svæði er bara alveg hreint frábært.

Af sparnaðarmálum er það að segja að ég uppgötvaði genbrugsvöruhús í dag, og fann þar þessa fínu koju fyrir stelpurnar ( I´m in thightwad heaven). Já og við hirtum eina leikeldavél með ofni af ruslasvæðinu, það er gott fordæmi sem við setjum stelpunum! He, he......

mánudagur, júlí 17, 2006

Sparsemi á hæsta stigi eða.....?

Sparsemi mín náði nýjum hæðum í dag, eða lægðum eftir því hvert viðhorf lesanda er. Ég var sem sagt að fara að ná í strætó, ætlaði niður í bæ að finna lítinn tveggja sæta sófa og sófaborð. Húsgögnin sem ég fann fyrir helgina verða nefnilega send heim til okkar á morgun og það kostar 150 d.kr. að fá þau keyrð heim. Ég ætlaði því aldeilis að vera sniðug að finna það sem upp á vantaði og senda með sömu ferð.

Jæja, þar sem ég geng hérna framhjá blokkunum, þá fer ég fram hjá ruslasvæðinu (N.B. ekki það sama og gámurinn fyrir eldhúsúrgang o.þ.h.) sé ég þá ekki hvar þarna liggur sófaborð úr gegnheilum viði og þessi fíni tveggja sæta sófi. Nú ég snéri beinustu leið heim aftur (var nefnilega með Yrju með mér) og bað Pál vinsamlegast að drífa sig út að ná í umrædda hluti. Þannig að nú held ég að ég sé innvígð inn í toppelítu nirflanna. I am officially a trashpicker!!

Eftir þetta hélt ég svo niður í bæ að kíkja pínu í genbrugsbúðirnar (það er svo gaman!). Tókst að rekast aftur á Óskar skólastjóra og frú. Hvað er í gangi? Þegar ég kom síðan heim aftur, kippti ég með mér tveimur eldhússtólum ( svona eins og appelsínuguli stóllinn hennar mömmu) og gardínum, sem ég hafði tekið eftir um morguninn, af ruslasvæðinu.

Ætli maður fari svo ekki bara að rölta reglulega um næstu götur til að kíkja á ruslasvæðin, og athuga hvort ég finni ekki spegilinn minn og kannski annan tveggja sæta sófa?

laugardagur, júlí 15, 2006

Ókeypis nammi...

Mér hefur alltaf fundist það vera eins og að komast í ókeypis nammibúð, að koma inn á bókasöfn. Þú þarft ekkert að borga, en mátt fara út með fangið fullt af allskonar gúmmelaði. Að koma inn í svona lítinn kassa þar sem liggja leiðir í allar áttir. Viltu læra ljósmyndun, skrautskrift eða útsaum? Lesa sögu forngrikkja, Mozarts eða Inkanna? Læra spönsku, arabísku eða ítölsku? Stelast í unglingabækurnar? Eða bara slappa af með góðan krimma eða ástarsögu? Það er heill heimur inni á bókasafninu.

Þess vegna var ég svo ánægð þegar ég uppgötvaði að það er bókasafn í 2 mín. göngufæri frá íbúðinni okkar (já, það er sko ekki mikið mál að vera án sjónvarps, á meðan ég hef bækur!). Mér hafði verið sagt að ég þyrfti að vera með cpr. nr (danska kennitölu) til að fá ókeypis bókasafnsskírteini. Þegar kennitölurnar komu svo með póstinum á föstudaginn, þá rauk ég niður í bókasafn (eins og illa haldinn fíkill), vissi nefnilega að það lokaði eftir 20 mín. Digital ljósmyndun, yes, föndur fyrir börnin, listasaga, yes, vatnslitamálun, Trinny og Susannah, klæðnaður muslimakvenna, yes, yes, yes, heimabakað brauð, vá! Ég var ekki lengi að fylla fangið af bókum, skellti þeim á borðið; Fá þessar takk!

Sniff, þá var víst ekki nóg að hafa cpr.nr, heldur þurfti ég að vera komin með Sygesykringskort. Hrmpfff....nú veit ég hvernig barni líður, sem fær ekki nammið sem því var lofað. En........sygesykringskortin komu í póstinum í dag, þannig að, ha, ha ha, ég dríf mig sko strax á mánudaginn og fæ mér bækur.

Svo á örugglega eftir að líða yfir mig að spenningi þegar ég fer og kíki á aðalbókasafnið niðri í bæ. Ég svitna bara. Það er náttúrulega stórhættulegt fyrir svona manneskju eins og mig að hafa svona mikið úrval.

föstudagur, júlí 14, 2006

Lítill heimur..

Jæja, ég er búin að sjá það að það þarf ekki að vera dýrt fyrir mig að seðja fíknina hérna í Arósum. Ég verð nefnilega að viðurkenna að ég er haldin smá SA (shopaholism). Þetta hellist yfir mig alltaf öðru hvoru. Hér í Árósum er ég hins vegar búin að finna einar 10 búðir sem selja notaðar vörur (vel af sér vikið á fyrstu vikunni!), og þær eru örugglega miklu fleiri. Þannig að nú er auðvelt, þegar ég finn þörfina hellast yfir mig, að skella sér í genbrugsbutik og versla sér eina peysu eða bol á 10kr.

Ég var einmitt í verslunarleiðangri í dag, að leita að húsgögnum. Ég fór nefnilega í IKEA um daginn og fannst alveg aaagalega freistandi að kaupa bara þar allt sem okkur vantar. Ég ákvað hins vegar, eftir að hafa dregið andann djúpt 10x, að reyna að vera svolítið útsjónarsöm og athuga hvort ég finndi ekki eitthvað að þessu notað. Og afraksturinn í dag var; Einn cosy hægindastóll, stórt eldhúsborð, eldhússtóll, ungbarnarúm, stofuhillur og hillur fyrir bað á 675 d.kr. Bara vel sloppið held ég.

Já og hvern haldið þið að ég hafi rekist á niðri í bæ í dag? Óskar skólastjóra og fjölskyldu!

fimmtudagur, júlí 13, 2006

Óvænt útsýnisferð.

Við Yrja lentum óvart í langri útsýnisferð um Árósa í dag. Við vorum búnar að vera að rölta í bænum og langt liðið á daginn, kom þá ekki strætóinn okkar, nr. 16 aðvífandi. Ég hafði reyndar ætlað mér að kíkja inn í efnabúð þarna rétt hjá, til að kaupa meira efni í gardínur, en ákvað að fyrst vagninn okkar kom þarna, að það væri ágætt að drífa sig bara heim!

Jæja klukkustund síðar snérum við aftur á sama stað niðri í bæ, eftir að hafa farið í þveröfuga átt við þá réttu og lent á endastöð. Nú veit ég það að 16 þarf ekki að vera það sama og 16, þeir keyra víst í báðar áttir vagnarnir, og ef maður vill ekki eyða því meiri tíma í að skoða þetta annars fallega umhverfi Árósar, þá er víst best að lesa utan á vagnana í hvora áttina þeir fara fyrst. Reyndar vorum við ekki þær einu í vagninum sem gerðu þessi mistök. Yrja svaf þetta bara allt af sér.

Annars uppgötvaði ég það í dag að ég er greinilega á einhverju öðru veðurbelti en danirnir. Mér fannst bara þokkalega heitt, var bara á hlýrabol, á meðan danirnir sem stigu inni í vagninn voru margir í flíspeysum og úlpum. Sá meira segja eina með þykkan trefil. Hitinn var að vísu bara 18 gráður og skýjað í þokkabót. Brrrrr......

miðvikudagur, júlí 12, 2006

Szabó fjölskyldan í Arabíu

Íbúðin sem við leigðum óséða er bara fín. Hún er stór, rúmgóð og mjög björt, enda eru veggirnir bara gluggar. Ég er því smátt og smátt að skipta út rúmfötunum sem ég negldi fyrir gluggana, fyrir almennilegar gardínur. Mikið hryllilega hlít ég að vera mikið ,,privat person" mér finnst bara mjög óþægilegt að fólk geti séð inn til mín. Þó erum við á 5.hæð en það eru blokkir beggja megin við okkur þannig að það gæti sést inn......reyndar var líka mikil sól fyrstu dagana hérna, þannig að það var ekki annað hægt en að negla rúmfötin til að skýla okkur. Ætli ég sé ekki að verða búin að sauma um 15 m af gardínum, en þá eru tvö herbergi eftir.

Okkur líkar bara mjög vel við hverfið sem við búum í. Eiginlega ekkert nema arabar og svertingjar hérna, enda heyrir maður varla dönsku og núna hljómar arabísk tónlist einhvers staðar hérna neðan af götunni. Í 5 mín. göngufæri er síðan stærðar arabískt eða tyrkneskt kolaport þar sem hægt er að kaupa allskonar girnilegar matvörur. Þetta virðist vera rólegt hverfi. Sundlaug, leikvellir og leikskólar hérna rétt hjá. Kringla í göngufæri og það er rosalega grænt og gróið hérna í kring, og meira segja hægt að fá smá blett til að rækta grænmeti.

Við erum því hæst ánægð. Ég er bara að verða svolítið óþreyjufull eftir að byrja í skólanum. Reyndar farið að örla á smá efa hjá mér hvort ég hafi nú nokkuð að gera í þetta? Hvort ég geti nokkuð miðað við hina sem verða á námskeiðinu? En ég veit svo sem líka að það skiptir ekki nokkru máli hvort að ég verði langlélegasti teiknarinn eða ekki. Markmið mín taka mið af sjálfri mér en ekki því sem aðrir geta.

Heil á húfi á áfangastað!

Annar júlí var sko langur og strangur dagur. Ég strengi þess hér með heit að ferðast aldrei aftur með svona mörg börn og svona margar töskur. Stelpurnar stóðu sig samt sem áður eins og hetjur, þrátt fyrir að vera rifnar upp um miðja nótt, þurfa að hanga í heillangan tíma í Leifstöð í biðröð til að geta checkað okkur inn. Fljúga yfir hafið, lenda í verkfalli affermingarmanna á Kastrup, heillangt hangs þar.

Hámarkinu var síðan náð þegar, eftir að hafa misst af einni lest til Aarhus á lestarstöðinni í Kaupm.höfn, við hlupum með grátandi börn og 13 töskur meðfram næstu lest sem fara átti þangað. Það er sko ekkert grín að þurfa að ferja 13o kg af farangri niður stiga, ásamt 3 litlum börnum og 3 kerrum, hlaupa undirgöngin og upp stiga aftur. Enda verð ég að viðurkenna að það vantaði bara örlítið upp á að ég settist bara niður og hágréti þegar við komum upp stigann og sáum að lestin var örugglega bara rétt að leggja af stað og vagninn sem við áttum pöntuð sæti í var af sjálfsögðu fjærstur okkur. Við höfðum enda engann tíma til að koma burðarkerrunum upp, það var rétt að við myndum eftir kerrunni hennar Elfar (nei djók!). Og við hefðum pottþétt misst af lestinni ef ekki hefði verið fyrir þetta yndislega fólk (örugglega 5-6 manns) sem tók að sér að hjálpa okkur. Blöskraði örugglega að horfa upp á börnin sem voru stödd víðsvegar um pallinn háskælandi.